Björgvin Skúli Sigurðsson hefur látið af störfum hjá Landsvirkjun. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs hjá fyrirtækinu. Þetta staðfestir Björgvin Skúli í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ástæðan fyrir því að við sömdum um þessi starfslok er sú að við erum búin að ná miklum árangri í því sem við stefndum að. Ég var ráðinn þarna inn fyrir fjórum árum síðan, þá voru aðstæðurnar allt aðrar. Bæði í efnahagslífinu og hjá okkur í Landsvirkjun. Við áttum nóg af rafmagni og vorum að leitast við að koma áfram verkefnum og búa okkur undir það að vonandi kæmi eftirspurn eftir þeim. Á þessum tíma héldum við að það myndi taka nokkur ár. En í raun hefur því markmiði verið náð. Það er umframeftirspurn eftir rafmagni í fyrsta skipti í sögu landsins og Landsvirkjunar,“ segir Björgvin Skúli.

Hann tekur enn fremur fram að staðan sé einfaldlega önnur hvað varðar áherslur markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. „Þetta eru ákveðin vatnaskil, þó að það hafi verið augljóst að það stefndi í þessa átt. Þetta hefur verið gífurlega áhugaverður tími hjá okkur í fyrirtækinu,“ bætir hann við.

Ákvörðun í samráði við forstjóra

Björgvin Skúli segir að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarson. „Við erum búnir að skoða þessi mál mikið og ákváðum að fara þessa leið,“ segir Björgvin Skúli. Hann segist þó ekki enn hafa tekið ákvörðun um hvað tæki við.

Björgvin starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Deutsche Bank í London. Þar áður starfaði hann hjá Lehman Brothers um þriggja ára skeið og síðar við slitastjórn sama fyrirtækis. Björgvin varði doktorsritgerð sína frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum á sviði stjórnunar og verkfræði árið 2005. Áður lauk hann meistaraprófi í hagfræði frá sama skóla.