Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefur verið ráðinn umsjónarmaður Menningarpressunnar.  Hann mun hafa yfirumsjón með umfjöllun um menningu og listir á netmiðlinum Pressan.

Björgvin var þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2003 til 2013 og viðskiptaráðherra árin 2007 til 2009. Hann er nú varaþingmaður Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi. Þá var Björgvin framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar og framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Hann er með BA-próf í sögu og heimspeki frá Háskóla Íslands, og stundaði MA-nám í heimspeki. Þá var Björgvin blaðamaður á Vikublaðinu árin 1996-1997, ritstjóri Stúdentablaðsins 1997-1998 og framkvæmdastjóri Reykvískrar útgáfu.

Haft er eftir honum í tikynningu að hann hlakki til að takast á við ný verkefni. „Framundan er mikil vertíð í margvíslegri útgáfu og því verður örugglega nóg að gera,“ segir hann. „Ég hef lengi haft mikinn áhuga á listum og menningu hverskonar og hlakka því sérstaklega til að geta helgað mig umfjöllun um menninguna í allri sinni breidd.“