Björgvin Guðmundsson, annar eigenda KOM almannatengsla, vandar Gunnari Smára Egilssyni, ritstjóra Fréttatímans, ekki kveðjurnar á Facebook. Gunnar Smári skrifaði fréttaskýringu í blaðið þar sem hann segir að fjármagnseigendur taki hærra hlutfall hagnaðar fyrirtækja til sín í formi arðgreiðslna en áður, en hlutur launþega hafi farið minnkandi frá aldamótum.

Björgvin segir greiningu Gunnars Smára ekki fullnægjandi. „Þú gleymir að taka alla þá peninga sem fjármagnseigendur töpuðu með því að taka áhættu í atvinnurekstri. Hvort sem það var með rekstri prentsmiðju eða stofnun fríblaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Launafólk fær venjulega alltaf greitt, tapar kannski vinnunni. En þá er sem betur fer annar fjármagnseigandi tilbúinn að veðja aftur jafnvel á sama hestinn og leyfa honum að hlaupa áfram. Þessi jafna gefur því ekki rétta mynd af því hvað launþegar fá úr atvinnurekstri vs. fjármagnseigendur. Þetta rugl þitt um hina nýju stéttabaráttu er kjánaleg Gunnar Smári Egilsson. Þú skilur þetta betur en má skilja af þessum texta. Það pirrar mig,“ segir Björgvin.

Óðinn, pistlahöfundur Viðskiptablaðsins, fjallaði um rekstrarsögu Gunnars Smára þann 3. desember í fyrra . „Gunnar Smári var forstjóri Dagsbrúnar, móðurfélagið 365 miðla og fleiri félaga frá lokum árs 2005 fram á mitt ár 2006. Þar á undan var hann forstjóri 365 ljósvakamiðla ehf. og 365 prentmiðla ehf. Fyrstu 9 mánuði ársins 2006 tapaði Dagsbrún 4.678 milljónum en tap ársins var um 7 milljarðar króna, en þá hafði nafni félagsins verið breytt í 365. Gunnar Smári hafði áður séð taprekstur í fjölmiðlum sem hann hefur stýrt eða átt hlut í, þó aldrei í þessum mæli. Haustið 2003 tók hann við rekstri DV eftir að Norðurljós keypti blaðið, en um svipað leyti eignaðist Jón Ásgeir Jóhannesson ráðandi hlut í félaginu.“