Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs, ætlar að biðjast lausnar á næsta borgarstjórnarfundi. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Fréttablaðinu .

Þar segist Björk vera komin með nóg af stjórnmálum og ákveðin aumingjavæðing sé í gangi í samfélaginu þar sem allt of margt vinnufært fólk fái fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Hún ætlar að halda til Palestínu þar sem hún verður sjálfboðaliði í bændasamfélagi.

„Ég er orðin þreytt á þessum minniháttar ágreiningsefnum sem oft eru gerð að stórum málum í íslenskri pólitík,“ segir Björk um ástæður þess að hún hafi ákveðið að hætta. Þá segir hún í viðtalinu að ákveðin aumingjavæðing sé í gangi. „Þú færð meira með því að eiga svolítið bágt, meiri athygli og meiri bætur,“ segir hún.

„Þið fjölmiðlarnir algjörlega alið á þessu með því að koma engum í viðtal nema hann hafi orðið fyrir ofbeldi eða áfalli alveg endalaust. Ég segi stundum að Íslendingar séu bara haldnir algjörri áfallastreituröskun og viðhalda sér í áfallinu með því að fá alltaf fleiri og fleiri sögur af fleiri og fleiri áföllum hjá öðrum. Við erum bara föst í þessu,“ segir Björk.