Einbýlishúsið við Ægisíðu 80 í Vesturbæ Reykjavíkur er nú orðið eitt dýrasta einbýlishús landsins. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Björk Guðmundsdóttir hafi keypt húsið, sem teiknað er af Sigvalda Thordarson, á 420 milljónir króna.

Einbýlishúsið var skráð á sölu þann 17. september síðastliðinn og var þá óskað eftir tilboði en þess getið að fasteignamatið hljóðaði upp á 222 milljónir. Var húsið einungis 9 daga á söluskrá en það var áður í eigu Guðbjargar Sig­urðardótt­ur kvikmyndaframleiðanda og Ottós Guðjóns­sonar lýta­lækn­is.

Einbýlishúsið er samtals 426 fermetrar á þremur hæðum og samkvæmt fasteignaauglýsingunni sem birtist í september er ytra útlit þess friðað. Í auglýsingunni segir jafnframt að hússins, sem byggt er árið 1958, sé víða getið þegar fjallað er um íslenska byggingarlist enda „hannað út í hörgul í fallegum og hreinum stíl“.

Í auglýsingunni kom fram að á jarðhæð sé herbergi til vesturs, stórt baðherbergi, gangur, miklar geymslur, baðherbergi, mjög stórt herbergi til suðurs með útgengi út í garð, auk sér 2ja herbergja íbúðar sem skiptist í forstofu, hol, herbergi, baðherbergi, eldhús, stofu og geymslu. Á 2. hæðinni er forstofa, gestasnyrting, hol, stórar stofur, borðstofa, eldhús, búr, þvottahús. Útgengt er út á stóra verönd frá stofu/borðstofu. Á 3. hæðinni eru 4 herb . (6 skv. teikningu), tvö baðherbergi, þar af hjónasvíta með baðherbergi og útgang út á stórar svalir.

Hægt er að skoða myndir af húsinu hér .