Áfengisnetverslunin Bjórland hlaut nú fyrir skemmstu Uppreisnarverðlaunin svokölluðu, sem Uppreisn – ungliðahreyfing Viðreisnar – veitir árlega. Bjórland hóf starfsemi fyrir rétt um ári síðan, og hefur selt fyrir um 50 milljónir, þrátt fyrir ákvæði laga um verslun með áfengi sem banna öðrum en ÁTVR að selja áfengi í smásölu hér á landi.

„Allt of lengi hefur forsjárhyggjan ráðið ríkum þegar kemur að smásölu áfengis á Íslandi og frumkvöðlastarfsemi ykkar hjá Bjórlandi er bæði stórt og mikilvægt skref í frelsisátt," segir stjórn Uppreisnar um ástæðuna fyrir veitingu verðlaunanna til Bjórlands þetta árið.

Þórgnýr Thoroddssen, einn eigenda Bjórlands, vill meina að lögin standist ekki reglur EES-svæðisins, þar sem ekki sé tekið fyrir smásölu erlendra netverslana með áfengi hér á landi með skýrum hætti í þeim. Þrátt fyrir að félagið hafi ekki farið í neinar grafgötur með sína starfsemi hafi engin afskipti verið höfð af rekstrinum enn sem komið er. „Við munum bara halda okkar striki á meðan svo er,“ segir hann, en veltan í fyrra nam um 25-30 milljónum króna, og félagið gerir ráð fyrir að þrefalda tölu að lágmarki fyrir árið í ár.

„Þegar við lögðum upp í þessa vegferð höfðum við ekki beint neina uppreisn í huga, þó það megi vissulega segja að þetta sé byltingarkennt viðskiptalíkan. Markmiðið er að þetta verði normið þegar fram líða stundir. Okkar draumur er að standa jöfnum fæti gagnvart öðrum fyrirtækjum á EES svæðinu,“ segir Þórgnýr um verðlaunin.

Uppreisnarverðlaunin eru sem fyrr segir veitt árlega „fyrir framúrskarandi og óeigingjarnt starf í þágu frelsis, jafnréttis og opnara samfélags“. Auk fyrirtækis, stofnunar eða samtaka eru verðlaunin veitt einstaklingi, en í þetta sinn hlýtur Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, verðlaunin fyrir „öflugt aðhald og beitta en málefnalega gagnrýni í heilbrigðismálum á kjörtímabilinu“.