Af umfjöllun erlendra fjölmiðla um niðurstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Ísland sé tækt til viðræðna um ESB-aðild, má lesa að áhugi ESB á Íslandi sé vegna þess að í Brussel líta menn á Ísland sem hlið að norðurskautinu.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra og formaður Evrópunefndar Alþingis, á vef sínum í kvöld.

Þá segir Björn að því sé skýrt haldið fram að Íslendingar verði að opna fiskimið sín, hafnir og eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum. Sé ekki fallist á þessa meginþætti sjávarútvegsstefnu ESB, náist ekki sameiginleg niðurstaða.

„Fróðlegt væri að vita, hvað ESB-aðildarsinnar séu fúsir til að verja mörg hundruð milljónum eða mörgum milljörðum króna til að afla svara, sem eru í raun augljós,“ segir Björn á vef sínum.

„Íslendingar breyta ekki sjávaraútvegsstefnu ESB með aðild sinni.  Að telja sér trú um annað er blekking. Að verja stórfé og óteljandi mannárum í þágu þessarar blekkingar er fráleitt.“

Sjá nánar á vef Björns.