Björn Bjarnason segir mikilvægt að nýta þá lögfræðilegu þekkingu sem býr á Íslandi til að treysta stöðu þjóðarinnar og koma í veg fyrir að „óbærilegir skuldaklafar verði lagðir á íslenska skattgreiðendur“.

Þetta kom fram í máli Björns á hátíðarmálþingi sem haldið var í tilefni af 100 ára afmæli lagakennslu á Íslandi í Háskóla Íslands í gær.

„Hin síðari ár hefur lagakennsla við íslenska háskóla tekið æ meira mið af Evrópurétti og nú skiptir miklu, að nýta þá þekkingu til hlítar í því skyni að treysta stöðu þjóðarinnar og koma í veg fyrir, að óbærilegir skuldaklafar verði lagðir á íslenska skattgreiðendur. Sú breyting hefur orðið á lagakennslu í landinu, að hún er nú boðin við fleiri háskóla en Háskóla Íslands. Hefur verið næsta ævintýralegt að fylgjast með því, hve stór hópur karla og kvenna hefur lagt stund á lögfræði undanfarin ár,“ sagði Björn.

Björn vísaði einnig til greinar The Washington Post, þar sem ástandinu í banka- og fjármálaheiminum er líkt við heimsstríð og sagði Ísland að margra áliti orðið fyrst ríkja til að lúta í lægra haldi í þeim átökum.

„Ég leyfi mér að kveða svo fast að orði, að ný sjálfstæðisbarátta sé óhjákvæmileg til að endurheimta og treysta fjárhagslegan styrk þjóðarinnar. Í þeirri baráttu mun örugglega reyna mjög á lög og lögfræðinga, eins og jafnan áður, þegar Íslendingar hafa leitast við að treysta stöðu sína í samfélagi þjóðanna,“ sagði Björn.