Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna í dag að að þeir sem eldri væru þyrftu að víkja fyrir nýjum frambjóðendum.

Fundur sjálfstæðismanna hófst eftir hádegi í dag og stóð yfir í rúma fjóra tíma.

Kosningarnar framundan komu til tals á fundinum og lagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, til að frambjóðendur í prófkjörsbaráttu stilltu kostnaði við hana í hóf.

Ráðherrar flokksins sátu fyrir svörum í lok fundarins. Þar sagði Björn meðal annars að önnur mál væru brýnni en Evrópumálin, í þeirri efnahagskreppu sem nú væri. Hlaut hann fyrir það mikið lófaklapp fundargesta.

Þá gerði Björn að umtalsefni þær fregnir að ný ríkisstjórn hygðist fá utanþingsmann til að gegna embætti dómsmálaráðherra. Björn sagði að það sýndi að maðkur væri í mysunni. Væntanlegir stjórnarflokkar treystu sér ekki til að fá fólk úr sínum eigin röðum í embættið.

Hann kvaðst þó fagna því, sagði hann, að reynt væri að finna einhvern hæfan í landinu til að gegna embættinu.