Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, segir erfitt að sjá að Alþingi hafi undanfarna daga og vikur verið sniðgengið á nokkurn hátt, en sem kunnugt er hafa ýmsir úr röðum þingmanna ekki talið sig fá nægar upplýsingar um gang efnahagsmála frá ríkisstjórninni.

Í pistli á heimasíðu sinni segir Björn jafnframt fráleitt að halda því fram að ekki hafi verið unnið skipulega að því að framkvæma það sem neyðarlögin sem sett voru 6. október sl. heimila.

„Með neyðarlögunum svonefndu, sem alþingi samþykkti, mánudaginn 6. október, var framkvæmdavaldinu veitt mikið vald yfir allri bankastarfsemi í landinu og síðan hafa þrír einkabankar breyst í ríkisbanka, með nýjum bankaráðum, völdum af stjórnmálaflokkunum, sem kynnt voru til sögunnar föstudaginn 7. nóvember.

Fráleitt er, að halda því fram, að ekki hafi verið unnið skipulega að því að framkvæma það, sem neyðarlögin heimiluðu varðandi bankana. Hins vegar hafa menn ekki hér frekar en annars staðar náð öllum þráðum í hendur sér við gjörbreyttar aðstæður og sumt hefur gengið verr og tekið lengri tíma en ætla mátti, eins og að koma samskiptum Íslands og alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í viðundandi horf.

Þar spillir mestu, að Bretar og Hollendingar hafa leitast við að beita áhrifum sínum til að knýja íslensk stjórnvöld til að fallast á afarkosti sína, sem tengjast ábyrgð á innlánum á svonefndum IceSave reikningum – en þeir valda þjóðinni allri gífurlegum vanda og erfiðleikum.

Erfitt er að sjá, að alþingi hafi verið sniðgengið á nokkurn hátt undanfarna daga og vikur – þar hafa verið umræður reglulega um einstaka þætti þess, sem er að gerast, og að því er lagasetningu varðar vegna þessara mála allra verður leitað til þingsins, þótt síðar verði.

Höfuðverkur þess verður ekki síst sá að koma saman trúverðugum fjárlögum fyrir árið 2009 en tillögur um efni þeirra hljóta að sjálfsögðu að breytast vegna þessara breytinga allra,“ skrifar Björn.

Pistill Björns.