Dæmigert er, að ráðherrar taka til við að kveinka sér undan viðbrögðum Breta og Hollendinga í stað þess að halda fram málstað Íslands. Að sjálfsögðu hefði utanríkisráðherra strax í dag átt að leggja af stað í ferð til nágrannalanda og Brussel til að kynna stöðuna.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra á vef sínum í kvöld þar sem hann fjallar um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við synjum forsetans á lögum um ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda vegna Icesave.

„Össur lætur sér hins vegar nægja að efna til mótmæla gegn Ólafi Ragnari með því að hætta við að fara með honum til Indlands! Hverjum er ekki sama?“ segir Björn á vef sínum.

Þá segir Björn að greinilegt sé að neikvæðari tónn sé í afstöðu Vinstri grænna til stjórnarsamstarfsins eftir atburði dagsins en Samfylkingarinnar, enda sé þingflokkur VG „klofinn ofan í rót í Icesave-málinu,“ eins og Björn orðar það á vef sínum.

„Engu er líkara en hér trúi stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar röngum fréttum erlendra fjölmiðla um, að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar,“ segir Björn.

„Þetta er einkennileg afstaða, sem byggist á hræðsluáróðri stjórnarsinna í Icesave-málinu frá upphafi, um að eitthvað ógurlegt gerist, verði ekki gengið að afarkostunum, sem birtust í samningi þeirra Steingríms J. og Svavars. Það þjónar enn málstað ríkisstjórnarinnar, að sem dekkst mynd sé dregin af stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Þannig telja spunaliðar Samfylkingarinnar best að ná sér niðri á Ólafi Ragnari núna.“

Sjá nánar á vef Björns.