„Leiðin, sem LÍÚ vill fara í gjaldeyrismálum, er skýr, einföld og skilar fljótt árangri," skrifar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á vef sinn um helgina og vísar þar til þeirrar hugmyndar LÍÚ að taka einhliða upp annan gjaldmiðil.

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna samþykkti eftirfarandi ályktun fyrir helgi: „Stjórn LÍÚ skorar á stjórnvöld að kanna nú þegar kosti þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil."

Björn gerir ályktunina m.a. að umtalsefni á vef sínum og segir hana stórtíðindi. „LÍÚ hafnar þeirri kenningu, að ekki sé einhliða unnt að taka upp annan gjaldmiðil og vill að kostir þess séu kannaðir nú þegar," skrifar hann og heldur áfram.

„Ég hef í ræðu og riti bent á, að þeir, sem ólmir vilja Ísland í Evrópusambandið (ESB) nýti sér veika stöðu krónunnar til að afla málstað sínum fylgis, þótt hitt sé ljóst, að einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé fær leið og létti fyrr af þjóðinni erfiðleikum vegna krónunnar."