Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að lögreglan á Suðurnesjum eigi ekki neitt tilkall til þess fjár sem runnið hefur til Ríkislögreglustjóra. Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, gagnrýndi í gær að fjárveitingar skuli hafa verið auknar til Ríkislögreglustjóra meðan ekki fáist nauðsynlegar fjárveitingar til lögreglustjórans á Suðurnesjum.  Dómsmálaráðherra vísar þessum ummælum á bug.  Hann segir fjárveitingarnar til Ríkislögreglustjóra byggjast á verkefnum sem embættinu hafi verið falin af ríkisstjórn.  Þar ráði sérsveitin og efling hennar mestu.  Hallarekstur lögreglustjórans á Suðurnesjum skapi hins vegar sjálfstæðan vanda sem Björn telur að þurfi að leysa með stjórnsýslubreytingum og fjárlagaákvörðunum.

Stefnir í 180 milljón króna halla

Í úttekt sinni á lögreglustjóranum á Suðurnesjum frá því í maí á þessu ári lýsti Ríkisendurskoðun yfir stuðningi við tillögur dómsmálaráðuneytisins um framtíðarskipulag lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum.  Í úttektinni voru þær sagðar til þess fallnar að þau ráðuneyti sem fari með forræði þessarar starfsemi fái skýrari aðkomu að markmiðssetningu og ákvörðun þjónustustigs á þessum sviðum sem og ábyrgð á nauðsynlegum fjárveitingum til þeirra.  Ennfremur taldi Ríkisendurskoðun að lögregluembættið hafi ekki lagt sig fram um að fara að tilmælum ráðuneytisins um að stofnanir þess virði fjárheimildir og leggi tímanlega fram vandaðar rekstraráætlanir.  Þvert á móti hafi gengið mjög illa að fá upplýsingar um sum þeirra verkefna sem embættið hefur ráðist í en embættið hefur verið rekið með rekstrarhalla frá stofnun.  Hallinn var 85 milljónir krónur árið 2007 og á þessu ári stefnir í um 180 milljón króna halla að sögn Ríkisendurskoðunar. Fjárhagsvandi lögreglustjórans á Suðurnesjum er þó ekki nýtilkominn en embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hafði verið rekið umfram fjárheimildir um langt árabil.  Ríkisendurskoðun segir ástæður vandans m.a. hafa legi í því að stofnað var til meiri kostnaðar við öryggisgæslu, fíkniefnaeftirlit og verkefni tengd Atlantshafsbandalaginu en nam tekjum vegna verkefnanna auk þess sem brottför varnarliðsins hafi lækkað tekjur án þess að kostnaður hafi minnkað til samræmis.  Þessi auknu umsvif voru að sögn Ríkisendurskoðunar ákveðin með vitund og vilja utanríkisráðuneytisins án þess að fjárveitingar hafi verið auknar að sama skapi.  Ennfremur sagði Ríkisendurskoðun að ef stjórnvöld vilji halda sem næst óbreyttum mannafla við lög- og tollgæslu á Suðurnesjum þá þurfi að auka fjárveitingar til að ná rekstri löggæsluhluta embættisins hallalausum án frekari sparnaðaraðgerða.  Svigrúm geti þó verið til sparnaðar en launakostnaður lögreglustjórans á Suðurnesjum á ársverk er að sögn Ríkisendurskoðunar talsvert hærri en við önnur lögreglu- og tollstjóraembætti.

Aðspurður hvort ákvörðun sín, um að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum lausa til umsóknar, sé tilkomin vegna hallareksturs undanfarinna ára segir dómsmálaráðherra að ákvörðunin taki mið af breytingu sem orðin er á embættinu og hann vilji að verði á því með því að skipta því í þrennt.  Þannig sé hægt að fella það að verkaskiptingu stjórnarráðsins og þar með einnig hægt að leysa krónískan fjárhagsvanda þess.