Björn Bjarnason gerir auglýsingu Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) í Morgunblaðinu í gær að umtalsefni í pistli á heimasíðu sinni. Björn segir að mun meiri pólitísk sátt yrði hér á landi um upptöku evru en um aðild að ESB, auk þess sem sú leið kunni að hugnast yfirvöldum í Brussel betur.

FÍS birti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í gær. Í henni var opið bréf til forsætisráðherra, þar sem kallað var eftir því að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB). Björn segir sérkennilegt að fylgjast með ákafa Evrópusinna hér á landi í ljósi vandræðagangsins sem nú er innan ESB.

„Ákall stórkaupmanna fellur ekki að stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Áður en ríkisstjórnin getur brugðist við því, þarf að semja nýjan stjórnarsáttmála, en forsætisráðherra hefur margítrekað, að hann hafi ekki hug á að breyta um stefnu í Evrópumálum,“ segir Björn í pistli sínum.

Að sögn Björns „felst leikaraskapur“ í því að segja annars vegar brýnustu hagstjórnarákvörðun Íslands að losna við krónuna og leggja hins vegar til að hafinn verði undirbúningur að aðild að ESB.

Velta má fyrir sér að bæta þriðju stoðinni, þ.e. evrunni, við ESB tengingu Íslands, til viðbótar við EES-samninginn og Schengen-samkomulagið, að sögn Björns. Hann segir engin lagarök mæla gegn því að það sé gert, auk þess sem meiri pólitísk sátt yrði um þá leið að taka upp evru en um aðild að ESB. Auk þess kann evruleiðin að sögn Björns að hafa meiri hljómgrunn í Brussel.

Pistill Bjarnar Bjarnasonar.