Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segist ekki muna eftir því á þeim tíma, sem hann sat í ríkisstjórn með Samfylkingunni að hún hafi lýst nokkrum efnislegum ágreiningi vegna ákvarðana bankastjórnar seðlabankans á fundum ríkisstjórnarinnar.

Björn gerir þettta að umræðuefni í pistli á vef sínum Björn tiltekur reyndar eitt dæmi; ,,.., nema þegar Össur Skarphéðinsson varð hræddur um stólinn sinn, af því að Davíð nefndi orðið þjóðstjórn en gat þess jafnframt, að hún væri ekki góður kostur, þar sem engin yrði stjórnarandstaðan."

Þá gerir Björn að umræðuefni að í sjónvarpinu var sýnt bréf Jóhönnu til Davíðs Oddssonar, þar sem hún býður honum að segja seðlabankastjórastarfinu lausu. ,,Hún sagði einnig, að Davíð hefði hringt í sig frá útlöndum en samtalið væri einkamál þeirra - en bréfið? Er það í anda góðrar stjórnsýslu að birta bréf innan hennar opinberlega, áður en því hefur verið svarað? Ég minnist þess ekki, að þannig hafi verið staðið að samskiptum við embættismann. Gilda sérstakar stjórnsýslureglur, þegar Davíð Oddsson á í hlut?" spyr Björn