Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, segir í pistli á heimasíðu sinni að ríkisstjórn og seðlabanki verði að ganga í takt til stuðnings krónunni á næstunni.

Í pistlinum kemur jafnframt fram að 50% hækkun stýrivaxta hér á landi úr 12% í 18% var sameiginleg niðurstaða íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Krónuvinafélagið sýnist ekki fjölmennt um þessar mundir, en annað hvort leggja menn sig fram um að styrkja krónuna á þessari ögurstundu eða þeir ákveða að leggja upp laupana og bíða þess, sem verða vill.

Ríkisstjórn og seðlabanki verða að ganga í takt til stuðnings krónunni næstu vikur, mánuði og jafnvel ár. Undan því geta ábyrg stjórnvöld ekki vikið sér, þótt ýmsir telji grasið grænna í túnfæti annarra mynta.

Til að sigrast á vanda verða menn að treysta sér til að horfast í augu við hann. Sameiginleg niðurstaða íslenskra stjórnvalda og IMF fól meðal annars í sér, að stýrivextir voru hækkaðir hér um 50% úr 12% í 18%,“ skrifar Björn.

Þakklátur Færeyingum

Björn segir í pistli sínum að þess sé vænst að í kjölfar ákvörðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirgreiðslu fyrir Íslendinga sem tekin verður 5. nóvember muni koma fyrirheit frá einstökum ríkjum um aðstoð.

„Færeyingar, nágrannar okkar, töldu sig ekki þurfa að bíða eftir grænu ljósi IMF og miðvikudaginn 29. október var sagt frá því, að færeyska landstjórnin mundi veita Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán, um 6,1 milljarð íslenskra króna. Allir færeyskir stjórnmálaflokkar samþykktu ráðstöfunina. Jóhannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, sagði það siðferðislega skyldu Færeyinga að aðstoða Íslendinga. Þetta er vinarbragð, sem seint verður fullþakkað, en minnir okkur á, að brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir er að tryggja gjaldeyrisstöðuna og að krónan verði örugglega gjaldgeng,“ skrifar Björn.