„[Evrópu]umræðan hefur þróast á næsta sérkennilegan hátt undandarnar vikur, sérstaklega eftir að hún varð að umræðu um stefnu Sjálfstæðisflokksins og hvort stefna flokksins verði þannig eftir landsfund sjálfstæðismanna, að Samfylkingin geti verið áfram með þeim í stjórn.“

Þetta segir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið en Björn gaf í dag út bókina Hvað er Íslandi fyrir bestu?

Bókin inniheldur valdar greinar Björns um Evrópusamstarfið og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Björn segir þetta gerast að tilstuðlan þeirra, sem um langt skeið, jafnvel um árabil hafi kvartað undan því, að ekki sé unnt að ræða kosti og galla aðildar vegna þess að alltaf sé vakið máls á öðru.

„Nú er farið að tala um stjórnarslit, ef sjálfstæðismenn spili ekki eins og Samfylkingin vill. Spyrja má: Snertir þetta hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu? Stuðlar þetta að markvissri sókn út úr rústum fjármálakerfisins? Sjálfstæðisflokkurinn verður að binda enda á þetta tal, ekki með friðkaupum við Samfylkinguna, heldur með því að móta þjóðinni skýra framtíðarstefnu, sem virkar strax,“ segir Björn.

Aðspurður um tilgang útgáfunnar segir Björn að fyrir sér vaki að auðvelda lesendum bókarinnar að sjá Evrópuumræðuna í víðu samhengi.

„Ég er ekki að skoða kosti og galla heldur lýsa eigin skoðun og varpa ljósi á skoðanir annarra,“ segir Björn.

„Í fyrstu greininni leitast ég við að skipa þjóðinni sess meðal annarra á tímum hnattvæðingar. Næstu grein má kalla fræðilega úttekt á Schengensamstarfinu frá íslenskum sjónarhóli.“

Björn segist hafa áttað sig á því, þegar hann varð dóms- og kirkjumálaráðherra, að erfitt væri að sjá heildarmynd þessa mikilvæga samstarfs og ákvað því að draga hana saman, þegar hann var beðinn að skrifa ritgerð í rit á vegum Háskólans á Bifröst.

Þá segir Björn að í bókinni sé að finna greinar um Evrópuumræðuna eins og hún hefur verið frá sumri 2007.

„Og ég geri grein fyrir því, hvernig ég sannfærðist um, að ekkert er því pólitískt og lögfræðilega til fyrirstöðu að skipta um gjaldmiðil einhliða, síðan hafa æ fleiri hagfræðileg rök hnigið til sömu áttar,“ segir Björn.