Öflugasta atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar felst í því að opna glufu í lögum til að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra.

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, á vef sínum í kvöld.

„Það virðist inngróið í vinstrisinnaða stjórnmálamenn að bera vantraust til embættismanna og þess vegna verði þeir að hlaða í kringum sig heilum sæg af já-bræðrum til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd,“ segir Björn.

„Þetta gerði Steingrímur J. á eftirminnilegan hátt með því að ráða þá Indriða H. Þorláksson og Svavar Gestsson til starfa undir merkjum fjármálaráðuneytisins, annan til að eyðileggja skattkerfið og hinn til að gera Icesave-samninga. Hvoru tveggja þjóðinni til mikillar óþurftar.“

Björn gerir einnig að umtalsefni ný lög á Alþingi sem feli í sér að fjölga borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 31.

„Til hvers í ósköpunum? Þakka má fyrir að salur þinghússins sé ekki stærri. Ef svo væri hefði Jóhanna & co. flutt tillögu um að fjölga þingmönnum,“ segir Björn.

Þá segist Birni blöskra að með nýjum stjórnarráðslögum skuli aukið vald flutt til forsætisráðherra, sérstaklega nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir situr í embættinu. Verri forsætisráðherra hafi þjóðin ekki kynnst.

„Jóhanna kemur varla í sjónvarp án þess að segja einhverja vitleysu. Það eitt dygði til þess í öðrum löndum að þingflokkur á bakvið forsætisráðherra gerði ráðstafanir til að halda eigin virðingu með því að falla frá stuðningi við hinn ósannsögula forsætisráðherra.“