Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra segir að við framkvæmd varnarmálalaga (sem sett voru á síðasta ári) hafi nýtt, ólögbundið stofnanaheiti komið til sögunnar, það er Varnarmálastofnun Íslands og út á við geti enginn efast um, að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk.

Þetta sagði Björn í ræðu sinni á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs um Auðlindir og hagsmunagæsla á N-Atlantshafi og Norðurskautinu í dag.

Í ræðu Björns kom fram að varnarmálalögin hafa að markmiði að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins á hernaðarlegum öryggismálum þjóðarinnar eftir brottför varnarliðsins. Lögin hafi verið sett til að flytja hernaðarleg málefni úr ráðuneytinu í varnarmálastofnun en hennar hlutverk er að sjá um rekstur ratsjárkerfis, sem reist var á vegum NATO og fyrir fé Bandaríkjamanna.

Þá annast varnarmálastofnun einnig rekstur mannvirkja á Keflavíkurflugvelli á svonefndu öryggissvæði þar, annast skipulag heræfinga og loftrýmisgæslu auk tengsla við hermálayfirvöld NATO, en nokkurt gegnsæi skortir varðandi þann þátt.

Björn sagði að með borgaralegri starfssemi mætti sinna rekstri ratsjárkerfisins og myndi það auka samhæfingu, þá helst við Landhelgisgæsluna. Hann gagnrýndi nýleg orð forstjóra Varnamálastofnunar þar hún gaf til kynna að ef starfssemin færi fram undir borgarlegum formerkjum myndu Íslendingar  hætta  að fá ratsjármerkin í gegnum kerfið, sem hér er rekið. Íslendingar væru ekki með her en samstarfsaðilar varnarmálastofnunar væru herir. Varnarmálastofnun væri borgaraleg stofnun með varnartengt hlutverk – með öðrum orðum, hernaðarlegt hlutverk.

„Ég dreg í efa, að á vettvangi Atlantshafsbandalagsins mundu menn banna Íslendingum að taka á móti merkjum úr ratsjárkerfi, sem þeir sjálfir reka, þótt aðrir kæmu að móttöku þeirra en starfsmenn varnarmálastofnunar,“ segði Björn í ræðu sinni.

„Ég sé ekki hvaða hag NATO hefur af því að gera kröfu til þess, að íslenska utanríkisráðuneytið stofni til hernaðarlegrar starfsemi undir dulnefni til að sinna verkefnum í  þágu bandalagsins hér á landi.“

Sjá ræðu Björns í heild sinni.