S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í borgarstjórn Reykjavíkur, mun ekki kost á sér til endurkjörs í borgarstjórnarkosningum næsta vor að því er kemur fram á vef RÚV. Björn var aðstoðarmaður Jóns Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra, á síðasta kjörtímabili en leiddi lista Bjartrar framtíðar í borginni í síðustu sveitarstjórnarkosningunum en hann tilkynnti um ákvörðun sína á borgarstjórnarfundi í dag.

„Þetta er síðasta fjárhagsáætlun sem ég kem að í bili vegna þess að ég hyggst ekki gefa kost á mér til áframhaldandi setu í borgarstjórn á næsta kjörtímabili,“ sagði Björn. „Ég er ekki að lofa því að ég sé farinn að eilífu. Af því að kannski kem ég aftur einhvern tímann ef þið sem eftir sitjið ætlið að fara að klúðra einhverja þá verð ég bara að segja eins og Arnold Schwarzenegger: I‘ll be back.“

Björn er fjórði oddviti stjórnmálaflokks í borginni sem tilkynnir að hann hefur ekki kost á sér til endurkjörs næsta vor eða hefur sagt skilið við flokkinn sem viðkomandi var kosinn í borgarstjórn fyrir. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata, hafa tilkynnt að þeir láti af setu í borgarstjórn við næstu kosningar. Þá hefur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sem var oddviti Framsóknar og flugvallarvina sagt sig úr Framsóknarflokknum. Þá hætti Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri Grænna í borgarstjórn í fyrra. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, verður því eini oddvitinn sem mun gefa kost á sér til endurkjörs.