*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 6. janúar 2017 07:51

Björn býður sig fram til formanns KSÍ

Björn Einarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víkings, hefur staðfest að hann bjóði sig fram til formanns KSÍ.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Björn Einarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víkings, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi KSÍ 11. febrúar.

Björn var formaður knattspyrnudeildar Víkings 2007-2013 og formaður aðalstjórnar Víkings frá 2013 auk þess sem hann hefur setið í stjórn Íslensks toppfótbolta (ÍTF). Björn hefur auk þess 20 ára reynslu af að stýra fyrirtækjum bæði hér á landi sem og erlendis. Hann hefur verið framkvæmdastjóri TVG-Zimsen frá árinu 2006. Björn hefur gefið það fram að hann komi ekki til með að þiggja laun sem formaður KSÍ.

Áður hefur Guðni Bergsson staðfest að hann bjóði sig fram. Geir Þorsteinsson, sitjandi formaður KSÍ, hyggst hins vegar ekki bjóða sig fram á ársþinginu.

Haft er eftir Birni í fréttatilkynningu að hann hafi fengið mikla hvatningu undanfarnar vikur til að bjóða sig fram. „Þetta er ákvörðun sem ég tek að mjög vel yfirlögðu ráði. Margt gott hefur áunnist innan sambandsins síðastliðinn áratug  en engu að síður er  skýr krafa um breytta og öflugri stjórnsýslu innan KSÍ sem mikilvægt er að hlusta á. Ég tel mig koma með mikla reynslu og þekkingu úr knattspyrnuhreyfingunni og atvinnulífinu til að vinna að þessum breytingum með jákvæðum hætti og samvinnu allra aðila. Mjög mikilvægt er að styrkja ímynd KSÍ gagnvart samfélaginu, aðildarfélögunum og samstarfsaðilum, innlendum sem erlendum. Það er mikill mannauður og reynsla innan stjórnar og á skrifstofu KSÍ sem nýta þarf vel og vandlega.

Efla þarf sjálfstæði skrifstofu KSÍ og styrkja hana enn betur til að takast á við daglegan rekstur. Ennfremur er mikilvægt í mínum huga að tryggja þarf skýrt jafnvægi milli stjórnar KSÍ og skrifstofu sambandsins. Það er mikil og góð vinna unnin í grasrótinni og á meðal aðildarfélaga KSÍ. Tryggja þarf öflugri brú á milli KSÍ og aðildarfélaganna sem hafa margar og ólíkar þarfir. Ég mun beita mér fyrir því að að efla umgjörð og vinnuramma landshlutafulltrúa sambandsins og styrkja þannig tengingu landsbyggðarinnar við KSÍ. Ég mun leggja mig allan fram og vinna af krafti og heilindum fyrir öll aðildarfélög KSÍ og íslenska knattspyrnu. Tækifærin eru sannarlega til staðar í þessum frábæra meðbyr sem íslensku landsliðin, bæði kvenna og karla, hafa búið til fyrir okkur," segir Björn

Stikkorð: KSÍ framboð Björn Einarsson formaður