Björn Leifsson, stofnandi og einn eigandi World Class, hefur ákveðið að bíða með frekari uppsagnir, að því er segir í frétt Morgunblaðsins um málið. Vonast Björn til þess að líkamsræktarstöðvar fái að opna aftur bráðlega.

Björn sagði í viðtali við Vísi á föstudag í síðustu viku að hann væri að íhuga að segja upp öllum sínum starfsmönnum sem eru 350 talsins. Hann sagði enn fremur að ef hann ætti ekki flestar þær fasteignir sem stöðvar World Class eru reknar í væri hann kominn í gjaldþrot.

Í fyrstu bylgju faraldursins var World Class lokað í um níu vikur. Líkamsræktarstöðvum var síðan aftur gert að loka í þriðju bylgju faraldursins og ekki liggur fyrir hvenær þær mega opna á ný.