Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður og stofnandi Pressunnar, hætti afskiptum af stjórnmálum í byrjun árs 2008 með nokkuð óvæntum hætti.

Í viðtali við Viðskiptablaðið tjáir Björn Ingi sig meðal annars um REI-málið svokallaða þar sem hann viðurkennir að mistök hafi verið gerð í því máli. Björn Ingi áréttar þó að það mál hafi ekki verið ástæðan fyrir því að hann hætti í stjórnmálum.

„Ég hafði ekki lengur ánægju af stjórnmálastarfinu og þótti innanflokksátökin í mínum flokki þá vera orðin of mikil og í kjölfarið taldi ég best að stíga til hliðar og fara að gera eitthvað annað,“ segir Björn Ingi.

„Ég gerði þetta á mínum eigin forsendum og án þess að nokkur ætti von á því, sem gerir það að verkum að ég gæti farið aftur inn í stjórnmálin kysi ég að gera svo síðar. Fyrst og fremst á maður ekki að starfa í umhverfi sem maður er ekki sáttur við. Ég held að maður nái ekki árangri þannig. Ég taldi að það yrði ekkert vandamál fyrir mig að fá vinnu eða verkefni annars staðar og það reyndist rétt. Mér finnst afar sorglegt að horfa upp á stjórnmálamenn ríghalda í embættið af því þeir eru hræddir um að enginn vilji neitt með þá hafa annars staðar.“

En þú varst aðstoðarmaður Halldórs, oddviti í Reykjavík og einn af framamönnum flokksins í nokkur ár, þú hefur væntanlega ætlað þér eitthvað meira í pólitík?

„Auðvitað. Ég var ekki búinn að gera stór plön fram í tímann, en ef ég hefði haldið áfram í stjórnmálum þá hefði ég klárlega gert tilkall til forystuhlutverks í flokknum. Ég hef ekki tapað pólitískri kosningu á mínum ferli,“ segir Björn Ingi.

„Hins vegar finnst mér það einkenna alla stærstu flokkana núna að þeir loga í innbyrðis átökum. Þetta er mikið áhyggjuefni. Ég skynja mjög mikla persónulega heift milli manna, sérstaklega milli samherja. Ég held því að ég verði ekki sá eini sem stígur út úr pólitísku sviði af þessari ástæðu.“

Sem fyrr segir er nánar rætt við Björn Inga í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar svarar Björn Ingi spurningum um aðgang auðmanna að Pressunni, pólitíska slagsíðu Eyjunnar og fleiru sem tengist rekstri Pressunnar. Auk þess tjáir Björn Ingi sig í fyrsta sinn í þrjú ár opinberlega um stjórnmál, eða frá því að hann steig sjálfur til hliðar af vettvangi stjórnmálanna.