Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, tilkynnti á heimasíðu sinni að hann mun frá og með deginum í dag hætta afskiptum af stjórnmálum.

Björn Ingi mun biðjast lausnar á borgarstjórnarfundi sem haldinn verður í dag.

Á heimasínu sína skrifar Björn Ingi: „Almenningur hefur orðið vitni að óvenjulega rætnum og persónulegum árásum gegn mér síðustu daga. Hreint og beint hatur í minn garð frá fyrrverandi þingmanni flokksins og gömlum samherja hefur vakið þjóðarathygli og halda skeytasendingar hans áfram, enda þótt allar helstu stofnanir og forysta Framsóknarflokksins lýsi yfir eindregnum stuðningi við mig og mín störf.

Þegar við svo bætist, að illa fengin gögn og fylgiskjöl úr bókhaldi kosningabaráttu flokksins eru farin að rata til fjölmiðla, má öllum vera ljóst að hatrið og viljinn til að koma höggi á mig og Framsóknarflokkinn eru orðin allri skynsemi yfirsterkari. Slík vinnubrögð vega vitaskuld að sjálfri tilvist hvers stjórnmálaflokks; trúverðugleik hans og innra starfi.

Þau vega að heiðri mínum og annarra frambjóðenda flokksins, þeirra sem starfað hafa í kosningabaráttunni og kosningastjórninni, þeim stjórnum kjördæmasambanda sem hafa fyrir löngu samþykkt og gengið frá lyktum kosningabaráttunnar og bókhaldi hennar og einsett sér markmið um fjáröflun í framhaldinu, rétt eins og í öllum flokkum og framboðum að loknum kosningum.

Á slíkum tímamótum er rétt að staldra við. Vitaskuld eru fjármál stjórnmálaflokka ekki á könnu eða ábyrgð einstakra frambjóðenda, en þegar slíkur trúnaðarbrestur í félagsstarfi er kominn upp og er knúinn áfram af heift í minn garð, hlýtur að vera orðin áleitin spurning hvort persónuleg óvild tiltekinna einstaklinga gegn mér sé farin að bitna á fjölskyldu minni, almennt á Framsóknarflokknum og fólki innan hans í Reykjavík og um land allt. Við það er ekki unnt að una, að mínu mati."

Yfirlýsingu Björns Inga má lesa á heimasíðu hans. Hann mun sem fyrr segir segja af sér sér á borgarstjórnarfundi í dag og mun Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi taka sæti hans í borgarstjórn.