Björn Ingi Hrafnsson, fyrrv. borgarfulltrúi og nú stjórnarformaður Vefpressunnar, hefur ekki tjáð sig opinberlega um stjórnmál í þau þrjú ár sem liðin eru frá því að hann steig til hliðar.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Björn Inga. Ekki var hjá því komist að spyrja hann um aðdraganda þess að hann ákvað að draga sig út úr stjórnmálunum og viðhorf hans til þeirra nú.

Ef við byrjum á REI-málinu svokallaða sem mikið var fjallað um í lok árs 2007 og varð meðal annars til þess að þáverandi meirihluti í borginni, sem þú áttir aðild að, hætti samstarfi. Þegar þú horfir til baka, telur þú enn að það hafi verið rétt að fara af stað með þetta mál?

„Eftir á að hyggja þá held ég að það sé alveg á hreinu að við Íslendingar, þar á meðal ég sjálfur, vorum komnir allt of langt í að gera hlutina á forsendum viðskiptalífsins. Viðskiptalífið er auðvitað nauðsynlegt hverri þjóð en hins vegar hefðum við mátt stíga varlega til jarðar. Þetta var ekki rétti jarðvegurinn fyrir slíkar hugmyndir þótt hugmyndin hafi verið að reyna að nýta þekkingu íslenskra vísindamanna,“ segir Björn Ingi.

„Raunin varð reyndar sú að þeir sem höfðu þessa þekkingu hættu störfum hjá Orkuveitunni og fóru að starfa sjálfstætt við að selja þekkingu sína og reynslu, sem er þó það sem við vöruðum við að gæti gerst. Það er þó ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að það hafi ekki verið gerð mistök í þessu máli. Ég gerði mistök og viðurkenni það fyrstur manna.“

--------------------

Undir hatti Vefpressunnar er að verða til nokkurs konar samstæða bæði frétta– og afþreyingarvefja. Í fyrrnefndu viðtali við Viðskiptablaðið svarar Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður félagsins, spurningum um aðgang auðmanna að Pressunni, pólitíska slagsíðu Eyjunnar og fleiru sem tengist rekstri Pressunnar. Auk þess tjáir Björn Ingi sig í fyrsta sinn í þrjú ár opinberlega um stjórnmál, eða frá því að hann steig sjálfur til hliðar af vettvangi stjórnmálanna.