Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sagðist í kvöld vera orðinn þreyttur á innbyrðis deilum og átökum innan Framsóknarflokksins.

Tilefni þessara ummæla er bréf sem Guðjón Ólafur Jónsson fyrrverandi þingmaður flokksins skrifaði til flokksfélaga þann 15. janúar síðastliðinn.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld en þar sagðist Björn Ingi aðspurður um hvort hann myndi yfirgefa flokkinn ætla að hugsa sinn gang.

Í bréfinu heldur Guðjón Ólafur því meðal annars fram að fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar hafi Framsóknarflokkurinn keypt föt á frambjóðendur fyrir hundruði þúsunda. Þá segir RÚV að bréfið umtalaða sé að mestu hugvekja um þá erfiðu stöðu sem Framsóknarflokkurinn standi frammi fyrir í borginni.

Björn Ingi kvaðst í samtali við RÚV aldrei hafa kveinkað sér undan kröppum dansi við pólitíska andstæðinga. Sárara væri þó að þurfa að verjast árásum samherja og vina.