Það má heyra á Birni Inga Hrafnssyni, stofnanda og stjórnarformanni Vefpressunnar, að hann hefur mikla trú á vefmiðlum og auknum umsvifum á netinu.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Björn Inga í Viðskiptablaðinu. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

Aðspurður hvort hann telji að framtíðarfjölmiðlun liggi helst á vefnum segir Björn Ingi að á því sé enginn vafi.

„Ég held að það sé í það minnsta ekki rétt sem kom fram í leiðara eins dagsblaðsins fyrir nokkrum árum, að netið væri bara bóla,“ segir Björn Ingi og hlær.

En menn eru samt búnir að spá dauða dagblaðanna mjög lengi en þau virðast lifa enn. Hvernig telur þú að sú þróun verði?

„Já, þau hafa ekki dáið en mörg þeirra eru ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var. Staðreyndin er samt sú að það er verið að loka dagblöðum í milljónaborgum víða í kringum okkur,“ segir Björn Ingi.

„Ég held þó að dagblöðin lifi áfram en það verður þó með öðrum hætti. Ég treysti mér til að halda því fram að síðasta dagblaðaprentvélin hafi verið flutt til Íslands. Ég er þó mikill aðdáandi dagblaða og hef alltaf verið. Hins vegar er tækniþróunin orðin þannig að blöðin munu koma út í breyttri mynd. Sum munu eingöngu koma út á netinu þó þau séu dagblöð.“

Hröð dreifing

Þá segir Björn Ingi að þetta sjáist með nýjum kynslóðum lófatölva, snjallsíma og fleira. Þannig séu menn á netinu allan daginn.

„Menn eru að innbyrða upplýsingar allan daginn og við sjáum að ein áhugaverð frétt eða pistill getur náð lestri yfir 50-100 þúsund notenda á mjög skömmum tíma,“ segir Björn Ingi.

„Þetta sýnir áhrifamátt netsins og góður netmiðill getur náð betri dreifingu og lestri en dagblöðin. Þetta kom glögglega fram í síðustu borgarstjórnarkosningum, þar sem Besti flokkurinn var aðallega á netinu og vann baráttu sína þar.“

Þá segir Björn Ingi að miklu fjármagni hafi verið varið á undanförnum árum í þá fréttavefi sem iðulega mælast efstir í vefmælingu hér á landi, mbl.is og visir.is. Hins vegar sýni árangur Pressunnar að hægt að sé að ná góðum árangri og ná til fjölmenns lesendahóps með tiltölulega litlu fjármagni.

„Pressan er að komast að upp að þessum tveimur stofnunum á íslenskum fjölmiðlamarkaði fyrir aðeins lítið brot af þeim fjármunum sem kostaði að byggja þá upp. Það eitt og sér er mikið afrek,“ segir Björn Ingi.

Ekki allt ókeypis

En vefmiðlarnir eru ókeypis fyrir notendur. Eiga menn að venjast því að fá fréttir og upplýsingar ókeypis eða kemur að því að menn þurfi að greiða fyrir þessa þjónustu?

„Ég held það verði hvoru tveggja. Ég held að ýmsar þær tilraunir sem menn eru að gera erlendis núna, þar sem reynt er að fá notendur til að greiða fyrir þjónustuna, séu dæmdar til að mistakast því það er enn svo mikið af ókeypis efni í boði fyrir notendur,“ segir Björn Ingi.

„Hins vegar tel ég að frekar sérhæfingu muni kosta. Sækist menn eftir tilteknum upplýsingum eða afþreyingu þá er ekkert óeðlilegt við það að menn greiði eitthvað fyrir slíkt, ýmis með áskrift eða kaupum á viðbótum í tölvur.“

--------------------

Undir hatti Vefpressunnar er að verða til nokkurs konar samstæða bæði frétta– og afþreyingarvefja. Í fyrrnefndu viðtali við Viðskiptablaðið svarar Björn Ingi spurningum um aðgang auðmanna að Pressunni, pólitíska slagsíðu Eyjunnar og fleiru sem tengist rekstri Pressunnar. Auk þess tjáir Björn Ingi sig í fyrsta sinn í þrjú ár opinberlega um stjórnmál, eða frá því að hann steig sjálfur til hliðar af vettvangi stjórnmálanna.