Sjónvarpsstöðin Íslands Nýjasta Nýtt, þekkt undir skammstöfuninni ÍNN, sem stofnuð var af og rekin af Ingva Hrafni Jónssyni verður tekin yfir af Pressunni ehf.

Hann mun þó áfram stýra þætti sínum Hrafnaþingi á stöðinni. Helsti eigandi Pressunnar er Björn Ingi Hrafnsson, en hann hefur verið að fjárfesta í ýmsum fjölmiðlum á síðustu árum.

Rekstri stöðvarinnar yrði hætt ef yfirtakan stöðvuð

Þetta kemur fram í frétt á Vísi , en þeir segjast hafa undir höndum bréf sem Ingvi Hrafn hefur sent til fjölmiðlanefndar um yfirtökuna. Segir hann þar nauðsynlegt að renna styrkari stoðum undir reksturinn og það yrði mikill kostur fyrir sjónvarpsstöðina ef hún yrði hluti af sterkari fjölmiðlaeiningu, en hann telur vert að tilkynna fjölmiðlanefnd auk samkeppniseftirlitinu um viðræðurnar.

Segir hann þar jafnframt að hann telji ekki yfirtökuna brjóta í bága við samkeppnis- og fjölmiðlalög heldur muni hún þvert á móti örva samkeppni. Hins vegar segir hann einnig að verði ekki af áformunum megi allt eins reikna með því að rekstri stöðvarinnar verði hætt.

Ástæðan minnkandi starfsþrek og RÚV

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að undirritaður er kominn á þann aldur að starfsþrek mitt er ekki jafn mikið og áður var og aukinheldur hefur reksturinn verið þungur undanfarið,“ segir Ingvi Hrafn í bréfinu, en hann telur erfiða stöðu í rekstri ÍNN megi rekja annað.

„Ég hef starfað í fjölmiðlaheiminum um áratuga skeið og ýmsa fjöruna sopið á þeim tíma. Undanfarið hefur staðan verið sú að RÚV hefur verið aðsópsmikið á markaðinum og rekstrarstaða þess félags – sem er hvort tveggja á fjárlögum og eins með sölu auglýsinga á samkeppnismarkaði – skekkir samkeppnisstöðu annarra sjónvarpsstöðva á markaðinum stórkostlega.“