Tveir nýir ritstjórar hafa verið ráðnir í fjölmiðlateymi Pressunnar. Það eru þeir Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, sem mun ritstýra Reykjavík vikublaði og Dr. Sigurður Ingólfsson, sem mun ritstýra Austurglugganum. Um er að ræða landshlutablöð.

Björn Jón er fæddur árið 1979 og stundaði nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og lögfræði við Háskólann í Reykjavík.

„Björn Jón hefur unnið margháttuð fræðistörf á umliðnum árum. Eftir hann liggja tvær bækur og fjöldi tímarits- og blaðagreina. Þá hefur hann einnig stundað verslunarstörf og starfað fyrir Samtök kaupmanna við Laugaveginn og Félag hópferðaleyfishafa," segir í frétt um ráðninguna á Eyjunni.

Dr. Sigurður Ingólfsson hefur stúdentspróf frá MA, hvar hann útskrifaðist árið 1986. Hann er með próf í almennum bókmenntafræðum og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann doktorsgráðu í frönskum nútímabókmenntum/nútímaljóðlist frá Université Paul Valery, að því er kemur fram á Eyjunni.

Reykjavík og Austurland vikublöð eru í eigu Pressunnar ehf. sem meðal annars gefur út DV, dv.is, pressan.is og eyjan.is.