Björn Þorvaldsson saksóknari, sem flutti Al-Thani málið fyrir hönd ákæruvaldsins, segir að þrátt fyrir þetta sé algjörlega öruggt að átt hafi verið við Ólaf Ólafsson sakborning í margumræddu símtali. Spurður að því hvort hann hafi haldið því fram við flutning málsins að átt væri við Ólaf Ólafsson segist Björn hafa teflt símtalinu fram.

Þegar blaðamaður ítrekar spurningu sína um hvort hann hefði haldið því fram að þar hafi verið átt við Ólaf Ólafsson segir Björn: „Þessu símtali var teflt fram og Hæstiréttur metur það á réttan hátt. Nú er ég búinn að svara því.“ Sé tekið mið af viðtölum við lögmenn sakborninga í málinu virðast þeir hafa talið við málflutning að í símtalinu væri átt við Ólaf Arinbjörn en ekki sakborninginn Ólaf.

Um þetta segir Björn að hver verði að meta það sjálfur eftir lestur á útskrift símtalsins. Spurður hvort sakborningarnir hafi fengið nægilegt tækifæri til þess að taka til varna um þetta atriði við málflutninginn segir Björn: „Ég ætla ekki að fara í frekari málflutning um þetta eftir að Hæstaréttardómur er fallinn í málinu. Niðurstaða Hæstaréttar er rétt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .