*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 23. mars 2015 11:25

Björn Óli: Ekki safn lúxusbíla

Umráð stjórnenda Isavia yfir bifreiðum frá fyrirtækinu eru takmörkuð, að sögn Björns Óla Haukssonar.

Bjarni Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptablaðið hefur áður greint frá bílahlunnindum stjórnenda og starfsmanna hjá Isavia. Alls hafa átta starfsmenn fyrirtækisinsins bifreið til umráða og nam kostnaður við þá 2,6 milljónum króna á síðasta ári. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir kostnaðinn reiknaðan út eftir reglum skattstjóra.

„Starfsmennirnir hafa flestir þessa bíla í takmörkuðum umráðum, þ.e. til að komast á milli heimilis og vinnu, og við vitum hver sú vegalengd er. Þá er fylgst með því reglulega að bíllinn sé ekki notaður í annað en þessi afnot með því að skoða kílómetramæli. Eins er settur rammi utan um afnot bíla sem eru í ótakmörkuðum afnotum, enda eru bílarnir ekki hugsaðir til ferðalaga. Þá verð ég að benda á að við höfum ekki verið að byggja hér upp flota dýrra glæsibifreiða fyrir framkvæmdastjóra,“ segir Björn Óli í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir fæsta framkvæmdastjóra félagsins hafa bíl til afnota.

„Bílarnir eru hugsaðir fyrir þá starfsmenn sem búsettir eru flestir í Keflavík og þurfa starfs síns vegna að koma oft en óreglulega til Reykjavíkur. Í flestum tilvikum er um að ræða fólk sem þarf stundum að hefja vinnudaginn í Reykjavík og stundum í Keflavík og því heppilegra að viðkomandi hafi bíl til umráða til slíkra ferða. Ef ferðirnar eru stopulli þá keyra menn á sinn vinnustað og taka svo vinnubíl til að fara á milli staða. Þeir framkvæmdastjórar sem eru með sína starfsstöð í Reykjavík eru ekki í þessu bílakerfi. Þetta utanumhald í bílamálum er allt hugsað til að hafa reksturinn sem hagkvæmastan og nýta tíma starfsmanna sem best og er í sífelldri endurskoðun.“

Ítarlegt viðtal við Björn Óla má finna í Viðskiptablaðinu sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.