*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 3. mars 2012 09:55

Björn Óli: Hagsmunir Isavia og Icelandair falla saman

Forstjóri Isavia segir leiðarkerfi Icelandair ganga upp þar sem búið er að byggja upp hraða og góða þjónustu á Keflavíkurflugvelli

Gísli Freyr Valdórsson
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Icelandair er lang stærsti viðskiptavinur Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll en ætla má að starfsemi Icelandair á vellinum nemi um 70-75% af allri starfsemi þar. Álagið í flugstöðinni myndast að mestu leyti vegna leiðarkerfis Icelandair og mikið af starfseminni, t.d. opnun verslana, snýr að komu-og brottfarartíma Icelandair í Keflavík.

Í viðtali við Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia, verður ekki hjá því komist að spyrja hann út í samskipti Isavia við Icelandair og eins hvernig Isavia tekst að aðskilja Icelandair frá öðrum félögum sem vilja eiga viðskipti við flugvöllinn.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Björn Óla. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni.

 „Það gengur vel. Við tölum mikið við flugfélögin og félög sem tengjast okkur mikið. Við erum auðvitað meðvitaðir um það að stærsti viðskiptavinurinn, sem í þessu tilfelli er Icelandair, er að mörgu leyti með aðrar þarfir en minni félög,“ segir Björn Óli, aðspurður um ofangreint.

„En það er eitt sem er mjög áhugavert í þessu samhengi. Einn af þeim hlutum sem gerir það að verkum að leiðarkerfi Icelandair gengur upp, þ.e. að þeir geta snúið vélum mjög hratt, er sá að við erum búin að búa til þannig kerfi að farþegar geta farið mjög hratt í gegnum flugstöðina, t.d. vopnaleit og tollskoðun og upp í aðra vél.“

Björn Óli minnir á að Keflavíkurflugvöllur hafi nýlega verið valinn besti flugvöllurinn í Evrópu og í könnun alþjóðasamtaka flugvalla hafi flugvöllurinn skorað mjög hátt í öllum flokkum sem snúa að þjónustu.

„Eitt af því sem farþegar voru spurðir um var hvernig þeim líkaði að millilenda í Keflavík og þurfa að ná þar öðru flugi. Þar vorum við næstbest í Evrópu,“ segir Björn Óli.

„Þetta er eitthvað sem við erum mjög stolt af en þetta er líka eitthvað sem Icelandair þurfa á að halda. Þarna falla hagsmunir okkar saman. Við viljum ekki fylla bygginguna af fólki sem bíður í biðröðum. Við viljum að það komist fljótt á milli staða, geti verslað í verslunum flugstöðvarinnar og farið hratt í gegnum vopnaleit og tollaeftirlitin eins og þeir þurfa oftast að gera ef þeir eru að millilenda.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Björn Óli yfir rekstur Isavia, framtíð Keflavíkurflugvallar og nýja flugstöðvarbyggingu auk þess sem hann svarar því hvort Isavia væri betur komið í höndum einkaaðila. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.