*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Fólk 11. mars 2010 14:15

Björn Óli Hauksson ráðinn forstjóri Flug-Kef ohf.

Ritstjórn

Stjórn Flug-Kef ohf. hefur ákveðið að ráða Björn Óla Hauksson forstjóra Keflavíkurflugvallar ohf. sem forstjóra sameinaðs opinbers hlutafélags um rekstur Flugstoða og Keflavíkurflugvallar.

Umsækjendur um stöðuna voru 44 talsins. Ráðgjafarfyrirtæki Hagvangur var stjórn félagsins til aðstoðar við mat á umsækjendum. Björn Óli mun taka við stöðunni við sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. 1. maí n.k. Björn Óli Hauksson hefur mikla reynslu og víðtæka þekkingu til að takast á við yfirstjórn í nýju og öflugu fyrirtæki sem hlotið hefur bráðabirgðaheitið Flug-Kef ohf. Hann er 48 ára að aldri og er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku.

Björn Óli hefur undanfarið eitt og hálft ár starfað sem forstjóri Keflavíkurflugvallar ohf. og leiddi umfangsmikla sameiningu Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og flugöryggisvarðadeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum. Áður vann hann í sex ár að uppbyggingu flugmála í Kósóvó, m.a. sem forstjóri Pristinaflugvallar og sem verkefnisstjóri þar á vegum Flugmálastjórnar Íslands og Flugstoða ohf. Hann setti m.a. á laggirnar flugmálastjórn Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó (CARO - UNMIK Civil Aviation Regulatory Office) og átti þátt í að sameina og byggja upp fyrirtæki um flugvallar- og flugstöðvarrekstur í Pristina.