*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 19. mars 2015 13:15

Björn Óli: Ummæli um „unga og graða“ starfsmenn misskilin

Tilgangur uppsagna hjá Isavia var að stytta boðleiðir innan fyrirtækisins.

Bjarni Ólafsson
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að á fundi með nokkrum eldri starfsmönnum hafi framkvæmdastjóri sagt að Isavia vildi ráða „unga og graða“ starfsmenn því fólk yfir ákveðnum aldri hefði ákveðna galla. Í kjölfarið hafði þremur af þeim sem sátu fundinn verið sagt upp. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir að um misskilning sé að ræða.

„Ég hef heyrt af þessum fundi en man ekki nákvæmlega hvernig orðalagið var. Ég held hins vegar að þarna hafi orðið ákveðinn misskilningur á milli manna. Verið var að ráða nýjan yngri yfirmann og ég held að sá sem þarna talaði hafi verið að tala um nýja yfirmanninn en ekki þá sem fundinn sátu og hafi meint þetta í gamni. Það er hins vegar alltaf varasamt að grínast á svona stundum og ég held að mennirnir hafi tekið þessu verr en það var meint.“

Hvað varðar uppsagnirnar segir Björn Óli að ákveðið hafi verið að stytta boðleiðir í þessari tilteknu deild.

„Þarna voru fjögur lög á milli æðsta yfirmanns og starfsmanna á plani og almenna reglan er sú að því styttri sem boðleiðir eru því meiri upplýsingar hefur yfirmaðurinn. Það hefur ekkert með gæði millistjórnendanna að gera og þeir menn sem þarna voru látnir fara höfðu allir unnið gott starf.“

Björn Óli er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.