Björn M. Sigurjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Prenttæknistofnunar. Hann hóf störf þar í byrjun ágúst síðastliðins. Hann mun starfa með fráfarandi framkvæmdastjóra, Inga Rafni Ólafssyni, út ágúst en tekur svo alfarið við taumunum í byrjun september.

Björn lauk B.Sc. prófi í landfræði frá Háskóla Íslands og Mphil gráðu frá Strathclyde háskóla í Glasgow. Að námi loknu starfaði hann sem sérfræðingur í rannsóknum hjá Ferðamálaráði Íslands á skrifstofu þess á Akureyri en réðst sem sérfræðingur í fræðslumálum til Íslandsbanka í ársbyrjun 2001. Undanfarin fjögur ár hefur Björn gegnt starfi sölustjóra einstaklingsviðskipta á útibúasviði Íslandsbanka. Meðfram því sinnti hann einnig stundakennslu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands í markaðsfræðum ferðamála og skipulagi og stefnumótun ferðamála. Þá má nefna að hann tók mikinn þátt í mótun nýrra námsbrauta í þeim greinum og gerði tilraunir með fjarkennslu og vefkennslu.