Bjørn Richard Johansen, norskur sérfræðingur í áfallastjórnun og almannatengslum, veitir krónuhópi erlendra kröfuhafa Glitnis og Kaupþings ráðgjöf í tengslum við mögulega nauðasamninga þrotabúanna. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Johansen þekkir vel til hérlendis en eftir bankahrunið árið 2008 var hann fenginn til þess að starfa fyrir stjórnvöld. Hann stýrði og skipulagði upplýsingastjórnun og samræmingu aðgerða. Johansen var áður yfirmaður erlendra fjárfestatengsla Glitnis.

Krónuhópurinn var settur á fót í febrúar síðastliðnum. Í Morgunblaðinu er greint frá því að hlutverk hópsins sé fyrst og fremst að leita leiða um það hvernig hægt sé að draga úr þeim áhrifum sem útgreiðsla krónueigna til kröfuhafa gæti haft fyrir fjármálastöðugleika á Íslandi.