Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur óskað eftir leyfi frá störfum í eitt ár. Ekki er ljóst hvort hann muni snúa aftur til starfa að leyfi loknu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Björn Rúnar, sem áður var forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans og starfaði á Þjóðhagsstofnun og í fjármálaráðuneytinu. Hann var settur skrifstofustjóri efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu forsætisráðuneytisins 31. október 2008 og fór síðan til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Í samtali við Morgunblaðið segir Björn Rúnar að hann geti ekkert sagt til um það hvort hann muni snúa aftur í ráðuneytið. Hann segir þessa breytingar ekki tengjast myndun nýrrar ríkisstjórnar. „Þetta er búið að vera í undirbúningi í nokkurn tíma og hefur ekkert með breytingar í stjórnkerfinu að gera,“ segir Björn Rúnar sem hefur verið ráðinn til starfa hjá Hagstofunni þar sem hann mun sinna efnahagsrannsóknum og hafa forystu um að byggja upp einingu sem hefur það hlutverk að gera gögn um efnahagsmál aðgengilegri fyrir þá sem stunda efnahagsrannsóknir. Hann mun hefja störf 1. september næstkomandi.