Fjöldi hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum hafa sagt upp störfum vegna óánægju með launakjör. Hjúkrunarfræðingar hafa nú verið án stofnanasamninga við spítalann í ár. Rætt var við Björn Zoega, forstjóra spítalans, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag og segir hann ekki vitað hversu margir hafi sagt starfi sínu lausu á föstudag. Slíkar upplýsingar verði teknar saman eftir helgi en segist Björn þó sjálfur hafa á tilfinningunni að nokkuð hafi verið um uppsagnir.

Hjúkrunarfræðingar hafa margir gert ástæður uppsagna ljósar opinberlega. Það gerði til dæmis Guðrún Yrsa Ómarsdóttir hjúkrunarfræðingur sem sagði eftirfarandi:

,,Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og þennan dag fyrir 24 árum eignaðist ég stúlkubarn. Ég var á mínu síðasta ári í hjúkrunarfræði og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur hautið 1989. Nú er dóttir mín á síðasta ári í hjúkrunarfæði og stefnir að því að útskrifast í vor. Við útskrift verða laun hennar um 280 þús. Á mánuði, dagvinnulaun sem eru byrjunarlaun hjúkrunarfæðinga,” skrifaði Guðrún Yrsa Ómarsdóttir hjúkrunarfræðingur á Facebook í gær rétt áður en hún skilaði inn uppsagnarbréfi.

,,Laun mín í dagvinnu eftir meira en 20 ára starf er 378 þús. Það munar 98 þús. Mikið er það gott veganesti fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem eru að útskrifast að þegar þær eru búnar að vinna í meira en 20 ár þá hafa þær hækkað um 98 þús, og jafnvel minna.

Á minni deild eru hjúkrunarfræðingar með meira en 20 til 30 ára starfsaldur með frá 340-378 þús í dagvinnulaun. Þetta er tilhlökkunarefni fyrir dóttur mína og hennar félaga sem útskrifast á næsta ári. Að skapa betri kjör fyrir þá sem starfa innan Landspitalann og þá sem eru að koma til starfa, eru verðmæti sem skilar sér í framtíðinni. Launatölurnar að ofan sýna að Landspítalinn metur ekki að verðleikum þann mannauð sem hann býr yfir. Mannauður er verðmætur og ber að meta mun betur en gert er þess vegna segi ég upp frá með 1 desember 2012.”