„Engum kemur í sjálfu sér á óvart að samfylkingarfólk bregðist ókvæða við tilhugsuninni um afturköllun ESB-umsóknarinnar. Hitt hlýtur að hafa komið Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og öðrum forystumönnum flokksins, í opna skjöldu hve harkaleg viðbrögð ESB-sjálfstæðismanna urðu,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifar um ESB-málið í vorhefti Þjóðmála. Þar gagnrýnir hann ESB-sinna í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkinga harkalega og segir það hafa frá upphafi verið hliðarmarkmið Samfylkingarinnar í ESB-málinu að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn.

Segir framgöngu ESB-sinna skammarlega

Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, á aðalfundi SA í mars 2013.
Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, á aðalfundi SA í mars 2013.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Björn segir aldrei hafa verið meirihluta á Alþingi fyrir aðild Ísland að ESB. Hann bendir á að þegar greidd voru atkvæði um umsóknina sumarið 2009 tóku nokkrir þingmenn, sem veittu umsókninni brautargengi fram að þeir vildu ekki að Ísland yrði aðili að ESB.

„Það er tímabært að sannfæring meirihluta þingmanna birtist í ályktun um þetta mál. Þetta er ólíðandi tvískinnungur í svo stóru máli. Skammarlegust er þó framganga ESB-sjálfstæðismanna sem koma aftan að foryustumönnum eigin flokks í þessu máli hvað eftir annað,“ skrifar Björn.

Hann skrifar sömuleiðis um Samfylkinguna að hún njóti „stuðnings fréttastofu ríkisútvarpsins við það verk. Að þeir sem ganga erinda þessara afla og skapa óvinafagnað innan Sjálfstæðisflokksins að loknum öllum landsfundum flokksins frá 2009 telji sig eiga hönk upp í bakið á formanni flokksins og öðrum forystumönnum hans sýnir aðeins að þeir líta ekki þannig á að lýðræðislegar reglur um vald meirihluta flokksmanna til að ákveða stefnu flokksins nái til þeirra,“

Björn segir m.a. að skilja megi af gagnrýni Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns flokksins á Bjarna Benediktsson í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað að slíta aðildarviðræðum við ESB, að hann hafi fengið eitthvert persónulegt loforð frá Bjarna Benediktssyni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það loforð hafi svo ráðið atkvæði Þorsteins í þingkosningunum í apríl í fyrra. Þorsteinn sagði í viðtali í útvarpsþættinum Vikulokin á RÚV í febrúar slit á aðildarviðræðum stærstu svik íslenskra kosninga .