Tvenn ummæli Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, um Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóra Baugs, sem hann birti í bókinni Rosabaugur yfir Íslandi árið 2011 voru dæmd dauð og ómerkt í Hæstarétti í dag. Björn þarf hins vegar ekki að greiða Jóni Ásgeiri miskabætur vegna málsins.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að eftir að bókin, sem fjallaði um Baugsmálið, kom út hafi lögmaður Jóns Ásgeirs sent Birni bréf og bent honum á rangfærslur í bókinni. Björn leiðrétti það sem í bókinni stóð á heimasíðu sinni ásamt afsökunarbeiðni sem birtist í dagblöðum. Þá var textanum breytt í 2. prentun hennar. Í dóminum tók Hæstiréttur undir með héraðsdómi að ummælin hafi verið röng og óviðurkvæmileg en sagði um mistök hjá Birni að ræða.

Á móti taldi Hæstiréttur ummælin ekki til þess fallin að hafa áhrif á stöðu Jóns og þátttöku hans  opinberri umræðu og sýknaði því Björn af kröfu Jóns Ásgeirs að hann greiddi sér 400 þúsund krónur í miskabætur auk hálfrar milljónar í lögfræðikostnað. Þeir voru því báðir látnir bera kostnað af málinu á báðum dómsstigum.

Dómur Hæstaréttar