Breytingar hafa orðið á framkvæmdastjórn Og Vodafone. Fyrrverandi framkvæmdastjóri vátrygginga- og fjármálaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar, Björn Víglundsson, hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra markaðssviðs Og Vodafone. Gestur G. Gunnarsson, sem áður gegndi stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs félagsins, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs. Þá mun Hrönn Sveinsdóttir taka við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs félagsins, en hún gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs P. Samúelssonar.

Núverandi forstjóri Og Vodafone, Árni P. Jónsson, mun tímabundið hafa umsjón með hinu nýja sölu- og markaðssviði.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur einnig fram að Anna Huld Óskarsdóttir muni láta af störfum hjá félaginu, en hún starfaði sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs. Hún mun þó áfram verða nýjum stjórnendum til aðstoðar um nokkurt skeið. Þá munu Viðar Þorkelsson, aðstoðarforstjóri félagsins, og Örn Orrason, framkvæmdastjóri fjarskiptasviðs, hefja störf hjá Dagsbrún, móðurfélagi Og Vodafone, samkvæmt nýju skipulagi sem áður hefur verið kynnt.