Ný heildarlög um stjórn fiskveiða verða tæplega sett á yfirstandandi þingi að mati Björns Vals Gíslasonar, alþingismanns. Hann ritar grein um stjórn fiskveiða í Fiskifréttum, sem komu út með Viðskiptablaðinu í dag.

Hann segir að á kjörtímabilinu hafi orðið allnokkrar breytingar á umhverfi sjávarútvegsins. Og nefnir bæði strandveiðar og veiðigjaldið, sem hann segir til að vera þótt einhverjir frambjóðendur kunni að freistast til þess í vor að lofa öðru. “Slík loforð eru meira til heimabrúks en efnda.“

Að lokum segir Björn Valur að sjávarútvegurinn sé lifandi grein í stöðugri þróun sem kalli á vandaða lagaumgjörð hverju sinni. Full þörf sé á því að setja nýja löggjöf um málaflokkinn og laga hana að þeim breytingum sem hafa átt sér stað í umhverfi greinarinnar. „Ný heildarlög um stjórn fiskveiða verða hinsvegar tæplega sett á yfirstandandi þingi. Það bíður betri tíma,“ segir í greininni.

Greinina í heild sinni er hægt að lesa í Fiskifréttum. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.