Fallið hefur verið frá launahækkun Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu. Fram kemur að samkomulag hafi orðið milli Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra og Björns Zoega um þessa ákvörðun með hagsmuni Landspítalans að leiðarljósi.

„Samkomulagið við Björn um að gegna áfram forstjórastarfinu á Landspítalanum með auknu svigrúmi til að sinna læknisstörfum gerði ég í góðri trú þar sem ég taldi það þjóna best hagsmunum sjúkrahússins við núverandi aðstæður. Þetta mat reyndist ekki rétt og ég tel að umræður sem orðið hafa um málið opinberlega og viðbrögð starfsmanna og stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks bendi til þess að engin sátt geti orðið um þessa ákvörðun.

Til að stuðla að sáttum í þágu Landspítala og þess mikilvæga starfs sem þar fer fram á hverjum degi var það sameiginleg niðurstaða okkar Björns að falla frá umræddu samkomulagi um breytt starfskjör. Hagsmunir Landspítalans verða að ganga fyrir eins og að var stefnt í upphafi," segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra samkvæmt tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Björn Zoëga segir að hann hafi afþakkað kjarabreytinguna í ljósi þeirra miklu deilna sem sprottið hafi í kjölfarið:

„Ég hef verið einlægur í því hlutverki að leiða öflugan hóp starfsmanna Landspítala á miklum niðuðskurðartímum. Eftir þessu starfi hefur verið tekið erlendis og mér hafa staðið til boða nokkur störf við að stýra stórum sjúkrahúsum í Evrópu. Þegar ég tilkynnti velferðarráðherra að ég ætlaði að segja upp störfum bauð hann mér að bæta við mig skurðlækningum og fá greitt fyrir það aukna vinnuframlag. Ég samþykkti þetta og um leið gerði ég kröfu um enn meiri stuðning við hin ýmsu verkefni LSH. Það var samþykkt. Ég taldi að með þessu yrðu um leið auknar líkur á að auðveldara yrði fyrir heilbrigðisstarfsfólk að sækja kjarabætur á næstunni. Ég hafði rangt fyrir mér hvað þann þátt varðar. Ég vona að með þessu móti skapist á ný friður á Landspítala og við getum farið að einbeita okkur að því sem við gerum best, en það er að hugsa um sjúklinga á spítalanum."