„Vinnudagarnir eru langir og mikið að gera. Ég þori ekki að reikna út hvað ég vinn marga tíma,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Greint var frá því fyrr í dag að Birni hafi verið boðin forstjórastaða á stórum spítala í Svíþjóð. Eftir að hann tilkynnti yfirmönnum sínum, þar á meðal Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra, frá boðinu hækkaði ráðherrann laun hans um 450 þúsund krónur í ágúst. Við það fóru laun Björns úr 1,9 milljónum króna í um 2,3 milljónir á mánuði.

Björn segir í samtali við vb.is að þótt hann hafi ráðið sig tímabundið sem forstjóra Landspítalans þá verði hann að nýta menntun sína.

„Ég er menntaður bæklunarskurðlæknir og verð að halda mér við. Svo er ákveðin sérþekking sem ég hef fram að færa. En á móti eru dagarnir langir,“ segir Björn sem samhliða starfi sínu sem forstjóri Landspítalans er klínískur prófessor við Háskóla Íslands. Í dag sinnti hann m.a. fjölda sjúklinga á göngudeild fyrir hádegið, kennslu eftir hádegi og sat fundi síðdegis.

Árið 2009 var lögum um kjararáð breytt og sett inn ákvæði um að við ákvörðun launa skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Bent var á það í hádegisfréttum RÚV í dag að í ákvörðun kjararáðs varðandi Björn er heimild til um að hann vinni læknisverk og hækki launin í samræmi við það.

Björn var bæklunarskurðlæknir við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg í Svíþjóð áður en hann tók til starfa hjá Landspítalanum árið 2002. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um það hvar honum hafi verið boðin forstjórastaða ytra.

Lág laun

Þrátt fyrir launahækkun Björns er hann ekki með há laun í samanburði við kollega hans á hinum Norðurlöndunum. Birgir Jakobsson stýrir m.a. Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í Svíþjóð. Talið er að laun hans nemi á bilinu 3,5 til 4 milljóna króna á mánuði að undanskildum fríðindum.