Björn Zoëga, fyrrum forstjóri Landspítalans, hefur verið ráðinn sem sjúkrahúsforstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð að því er sænskir fjölmiðlar greina frá.

Sjúkrahúsið er rekið í nánu samstarfi við Karólínsku stofnunina, sem er háskólastofnun. Háskólasjúkrahúsið er sagt eitt fremsta þróunarsjúkrahús í Evrópu, en eftir samruna við Huddinge háskólasjúkrahúsið árið 2004 starfa þar nú um 15 þúsund starfsmenn. Gert er ráð fyrir 1.340 sjúkrahúsrúmum á stofnuninni.

Björn Zoëga starfaði um sex ára skeið sem framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum og sem forstjóri hans, en lét þar af störfum árið 2013. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um undir lok árs 2017 tók hann við sem aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs einkareknu sænsku heilbrigðissamstæðunnar GHP.

Hann hóf störf árið 2016 hjá fyrirtækinu sem forstjóri bæklunarspítala samstæðunnar sem sérhæfir sig í og gerir flestar hryggjaraðgerðir af öllum sjúkrahúsum Norðurlanda.