Tæpt ár er í það að Rússar velji sér nýjan forseta. Í marsmánuði á næsta ári mun Vladímír Pútín láta af embætti, það er að segja verði stjórnarskrá landsins ekki breytt fyrir þann tíma. Stjórnarskrá Rússlands meinar forsetanum að sitja lengur en í tvö kjörtímabil og eru vinsældir Pútíns slíkar og ítök hans í stjórnmálalífi landsins það sterk að talið er að hann gæti beitt sér fyrir slíkum breytingum: Hann hefur hinsvegar útilokað slíkt. Því mun að öllum líkindum nýr maður spreyta sig á því erfiða verkefni að feta í fótspor Pútíns sem hefur umbreytt stöðu Rússa á alþjóðavettvangi og komið á stöðugleika í róstursömu landi. Mörgum kann að finna nóg um þær aðferðir sem hann hefur beitt til þess að ná þeim árangri og andstæðingar hans efast um að stjórnvöld hafi yfirhöfuð fetað gæfuríkan veg í valdatíð hans. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir gerræði og óbilgirni gagnvart nágrannaríkjum. Tóninn í þeirri gagnrýni hefur harðnað undanfarin ár en ástæðu þess má helst finna í þeirri staðreynd að vægi Rússa á alþjóðavettvangi hefur aukist gríðarlega. Ástæða þess er mikilvægi rússneskrar orku fyrir hagkerfi heims. Á sama tíma og eftirspurn hagkerfa heimsins eftir orku virðist vera óseðjandi er vaxandi spenna á vettvangi alþjóðamála: Þetta hefur gert það að verkum að staða Rússa gagnvart öðrum ríkjum styrkist og geta stjórnvalda til þess að tryggja hagsmuni sína á alþjóðavettvangi eykst, en að sama skapi halda Bandaríkin og Evrópa áfram að reyna að tryggja hagsmuni sína á fyrrum áhrifasvæðum Sovétríkjanna. Ástandið í samskiptum Rússa við umheiminn er því áhugavert, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Það er ekki ofsögum sagt að Vladímír Pútín hafi ekki tekið við gæfulegu búi af forvera sínum í embætti, Boris Jeltsín. Tíundi áratugurinn í sögu Rússlands var róstursamur: framkvæmd umbreytingar hagkerfisins úr miðstýrðum áætlunarbúskap yfir í markaðshagkerfi var misheppnuð, spilling landlæg og lögleysan slík að Rússlandi var lýst sem "þjófaríki" svo gerð sé tilraun til þess að íslenska hugtakið "kleptocracy". Umbreytingin á hagkerfinu færði stórum hópi manna fátækt og eymd, og í lok tíunda áratugarins, eða árið 1998, reið svo önnur fjármálakreppa yfir. Hún átti sér rætur í Suðaustur-Asíu en rússneska hagkerfið varð harkalega fyrir barðinu á minnkandi áhuga fjárfesta til þess að halda eignum í svokölluðum þróunarmörkuðum. Stjórnvöld í Moskvu neyddust til þess að fá neyðarlán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem átti að verja til endurreisnar hagkerfisins en ráðamenn í ríkisstjórn Bill Clintons beittu sér fyrir fyrirgreiðslunni vegna áhyggja af þeim afleiðingum sem hrun Rússlands kynni að hafa á alþjóðafjármálamarkaði og ótta við að kreppan gæti orðið myllusteinn um háls lýðræðis í landinu. Meðal áhrifa fjármálakreppunnar var að gengi rúblunnar hrundi, fjármagnsflótti náði áður óþekktum hæðum, fjármálastofnanir urðu gjaldþrota og hinar neikvæðu félagslegu afleiðingar efnahagstefnunnar í upphafi tíunda áratugarins voru að mörgu leyti festar í sessi.

Fall Rússlands, frá því að vera stórveldi í búningi Sovétríkja yfir í það að vera undirmálsríki, var fullkomnað á þessum tíma, og horfurnar til lengri tíma urðu ekki glæsilegri þegar tekið var tillit til pólitískrar ólgu og ástandsins í Tsjetsjeníu. Sú efnahagsstefna sem var sniðinn af hagfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Washington-sáttin svokallaða (e. Washington consensus) reyndist Rússum illa, og á sama tíma þöndust helstu stofnanir Vesturlanda, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið, til austurs og var sú stækkun framkvæmd án mikilssamráðs við stjórnvöld í Kreml. Ef til vill kann sá skortur að skýra þann tón sem nú er sleginn af rússneskum stjórnvöldum í utanríkisstefnu í dag.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.