Brasilíumenn drekka minni bjór en áður var og það hefur áhrif á sölutölur stærstu bruggverksmiðju heims, Anheuser-Busch InBev. Í frétt CNN Money , kemur fram að sölutölur í Brasilíu hafa dregist saman um 9% á síðasta ársfjórðungi — og það hafi haft afgerandi áhrif á hagnað fyrirtækisins.

Á ársfjórðungnum hélt Brasilía meðal annars Ólympíuleikana, stærsta íþróttaviðburð heimsins, en það nægði ekki til að rífa upp sölutölur fyrirtækisins. Stærsta hagkerfi rómönsku Ameríku er í bágri stöðu og líklegt er að það hafi alvarleg áhrif á bjórsölu.

Bág staða í Brasilíu

Atvinnuleysi hækkar í sífelldu og laun hafa dregist saman í Brasilíu, AGS spáir 3,3% samdrætti á hagkerfi Brasilíu á árinu. Þeir sem drekka enn bjór í Brasilíu velja frekar að drekka bjór úr endurvinnanlegum glerflöskum, fram yfir bjór AB InBev.

Fyrirtækið tók skell vegna veikingar brasilíska ríalsins á seinni helmingi árs 2015. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatt dróst því saman um 33% á þriðja ársfjórðungi í Brasilíu. Í kjölfar útgáfu árshlutareikningsins lækkaði gengi hlutabréfa í AB/InBev um 4%.

Stærsta brugghús heims

Nýlega fjallaði Viðskiptablaðið um stærstu yfirtöku eins brugghúss á öðru, en AB InBev, stærsta bruggfyrirtæki heimsins, tók yfir rekstur á samkeppnisaðila sínum SAB Miller. Eftir kaupin framleiddi fyrirtækið þriðjung alls bjórs í heiminum.