Í Hálffimm fréttum Kaupþings kemur fram að sala á áfengi nam alls 12,7 milljörðum króna á síðasta ári, sem var um 11% aukning frá fyrra ári. Heildarsala áfengis var um 19,6 milljarðar lítra og vó sala á bjór þar langþyngst. Bjórsala jókst um 5,7% en um 2,7% á léttu víni og áfengi undir 22% styrkleika.

Talsverð aukning varð á sölu á sterku áfengi (styrkleiki 22% og yfir) eða um 26% frá fyrra ári.

„Hafa ber þó í huga að þessi vöruflokkur nær ekki upp í fimm prósent af heildarsölu áfengis en hlutdeild bjórs er um 78%. Sala á tóbaki var 6,6 milljarðar króna og jókst um tæp fimm prósent,“ segir í Hálffimm fréttum.

Af einstökum vörutegundum í ÁTVR skipaði hálfs líters dósabjór frá Víkingi sér efst á lista yfir söluhæstu tegundirnar: Seldust yfir 2,1 milljón lítrar af honum í fyrra.