Bjórsala í verslunum ÁTVR jókst um 13% milli ára í júní og er það heldur meira en meðaltalsaukning síðustu sex mánuðina, en hún er tæp 8%. Ekki er gott að segja hvað veldur en böndin berast að EM í knattspyrnu sem er nýlokið, en reynslan sýnir að meira selst af bjór á meðan stórviðburðir á borð við EM standa yfir. Alls runnu út úr verslunum ÁTVR 1.124 lítrar af bjór í júní 2004, samanborið við 993 þúsund lítra í fyrra og geta því Íslendingar fagnað því að hafa rofið milljón lítra bjórmúrinn, á meðan Grikkir brutu niður hverja stórþjóðina á fætur annarri á knattspyrnuvöllum í Portúgal.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag kemur fram að söluhæsti bjórinn á Íslandi í júní var Víking og seldist nær helmingi betur en Thule sem var í öðru sæti, en sala á honum dregst töluvert saman milli ára. Egils Pilsner stökk í fimmta sæti yfir söluhæstu bjórtegundirnar og Víking Lite sem einnig er ný bjórtegund náði sjöunda sætinu. Athygli vekur að Carlsberg var áttundi söluhæsti bjórinn með 58,5 þúsund lítra selda í júní, en fyrir ári síðan var Carlsberg sjöundi söluhæsti bjórinn í verslunum ÁTVR með 50,6 þúsund lítra í júní. Carlsberg var einn af aðalstyrktaraðilum EM í knattspyrnu og var mjög sýnilegur á meðan keppninni stóð.