Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er andvíg olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Hildurs Knútsdóttur um olíuleit og- vinnslu á Drekasvæðinu.

Fram kemur í svari ráðherra að sérstaða Íslands varðandi mikla nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hyrfi. „Ísland gæti auðvitað eflt aðgerðir gegn loftslagsbreytingum ef olíuvinnsla hæfist og nýtt til þess m.a. tekjur af vinnslu olíu. Mörg olíuvinnsluríki verja miklum fjárhæðum til loftslagsmála, svo sem Noregur. Það er þó ljóst að öll ásýnd Íslands í loftslagsmálum og forsendur í aðgerðaáætlun breyttist verulega með vinnslu olíu. Það væri afar erfitt að halda því fram að Íslendingar væru forystuþjóð í loftslagsmálum í því tilfelli,“ segir í svari ráðherra.

Enn fremur tekur Björt fram í svari sínu að hún sé andvíg framlengingu sérleyfis sem veitir Eykon Energy ehf, CNOOC Iceland, Petoro Iceland, sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis. Bréfið var undirritað af Orkustofnun árið 2014 og gildir til 2026. En hún bendir jafnframt á að leyfisveitingar vegna slíkra leyfa falla ekki undir verksvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Nýverið var Björt í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hún lagði áherslu á aðgerðir Íslands varðandi loftslagsmál. Þar sagði hún: „Stærsta verkefnið á mínu borði eru loftlagsmálin og það er líka stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og heimsins í heild sinni. Þetta er mesta náttúruvá okkar tíma og framtíðarinnar, það er komið að reikningsskilum og við megum ekki ganga á rétt komandi kynslóða til að lifa við sömu gæði og við. Þetta er mjög stórt verkefni eins og sást best þegar þeir sex ráðherra sem eiga mest í hlut rituðu undir samstarfsyfirlýsingu um aðgerðaáætlun í þessum málum. Öll ríkisstjórnin tekur þess mál mjög alvarlega.“